Select Page

Land undir fót / Set off on foot

Land undir fót og fætur nema með iljunum jörð, jörðin bæði mjúk og hörð.

Hörðust við upphafið, við brún jökulsins jökulsorfnar klappir og grjót. Grjótið hart en formið ávalt og mjúkt. Jörðin gróðurvana, landslagið stórskorið. Úr jöklinum spýttist svargrátt beljandi fljót, vatninu líkt við sement, mettað kornóttum aur sem með kraftinum úr fljótinu hafði mestan rofmátt allra fljóta á landinu. Fossar náðu ekki að myndast heldur slípuðust umsvifalaust niður í flúðir og flúðirnar breyttust í gljúfur sem dýpkuðu örar en önnur gljúfur og urðu að dýpstu árgljúfrum landsins. Dalurinn settur hjöllum sem mynduðu stórstígar tröppur niður að fljótinu. Fryssandi lækir trítluðu niður dalinn alla leið – silfurtærir, glitrandi mættu þeir gráum beljandanum, urðu eitt og efldust smátt og smátt og fjótið varð sífelt öflugra eftir því sem nær dró hafinu.

Annað fljót spýttist úr jöklinum á öðrum stað þar sem jökullinn er annarrar gerðar, gefur ekki af sér slíkan aur heldur fínlegt set. Léttara yfirbragð, mjúkar bugður og foss kenndur við töfra. Stuðluð gátt dýpra í dalnum við neðsta sethjall þar sem fljótin mættust, sameinuðust og urðu að sterkari heild. Á milli fljótanna þríhyrndur rani og jökullinn fyrir ofan. Kringilsárrani, aflokaður af jökli og fljótunum tveim, einangraður, afskekktur. Þó ekki afskekktur meðal dýra, þangað fljúga gæsir og þangað óðu hreindýr að vori þegar jökullinn var enn kaldur og gaf sem minnst af sér. Gæsir bjuggu sér hreiður og komu upp varpstöðvum, einum mestu á landinu enda landið búsældarlegt, öruggur staður til að ala upp afkvæmi, varinn fljótunum tvemur og stærsta jökli álfunnar. Dúandi jarðvegur og þéttur gróður, lækir og tjarnir. Skötuormar í tjörnum, Kornsúra vinsæl meðal gæsa. Hreindýrahorn á stangli, sundurnöguð af dýrum sem felldu horn en lögðu til kalkforða fyrir sig og sína. Jarðvegur þakinn gæsaskít, sundurplokkaður af gæsanefi sem stingur sér niður til að sækja gómsætt Kornsúrufræ. Í loftinu lykt úr ríki dýra en dýrin láta ekki á sér kræla, næm á mannaþef, dvelja í vari úr augnsýn. Jökullinn sérstakrar gerðar, flatur sem tunga, hleypur fram í takti við tæpan mannsaldur. Hleypur langar leiðir og skrapar upp jarðveginn. Rúllar honum upp einsog gamaldags rúllutertu. Rúllar og rúllar alla leið þangað sem hann ákveður að stoppa að sinni. Skilur eftir sig töðuhrauka. Á milli laga má lesa sögu eldsumbrota í bland við gæsaskít og hreindýrahorn. Hraukarnir mynda skjól og tjarnir. Hraukarnir félagsheimili gæsa og hreindýra og þeirra sem leggja á sig ferðalag um jökul. Kökkur í Háls, fljótin stífluð og allt varð svart.

 

Pin It on Pinterest

Share This