Scheissland
Klisjur og draumsýnir um Ísland
MBL. Sunnudaginn 18. desember, 2005 – Aðsent efni
“Með verki sínu vill Ósk draga fram þann tvískinnungshátt sem er að finna bæði í þýskri og íslenskri afstöðu til náttúrunnar.”
Sigríður Þorgeirsdóttir fjallar um sýningu íslenskra listamanna í Köln: “…list stendur ekki undir nafni ef hún hættir að ögra.”
NÝLEGA yfirstaðin kynning á íslenskri list í Köln gefur tilefni til hugleiðinga um vissa hugarfarslega þætti menningartengsla Þýskalands og Íslands. Samband þessara tveggja landa hefur löngum verið sérstakt. Fyrir utan Norðurlandabúa eru Þjóðverjar þeir nágrannar okkar í Evrópu sem mestan áhuga og þekkingu hafa á Íslandi.
Þrátt fyrir hugmyndafræðilega misnotkun nasista á norrænum goðsagnaarfi hefur Ísland haldið áfram að heilla marga Þjóðverja. En hugmyndin um Ísland hefur breyst. Áherslan hefur færst frá sagnaarfinum yfir á náttúru Íslands. Þetta gerist á sama tíma og Þjóðverjar hafa að miklu leyti glatað náttúru síns eigin lands. Óvíða er jafn mikil umræða um umhverfismál og náttúruvernd eins og í Þýskalandi. Í huga margra Þjóðverja er Ísland eitt örfárra landa sem hafa sloppið við afleiðingar efnaiðnaðar og rask á vistkerfi sem þýsk náttúra líður fyrir.
Ef litið er til þýskrar fjölmiðlaumfjöllunar um Ísland eru íslensk þjóðareinkenni iðulega sett í samhengi við villta og ósnortna náttúru landsins. Í móðurlandi rök- og tæknivæðingar nútímans þar sem “dulmagnið” er horfið, eins og þýski félagsfræðingurinn Max Weber komst að orði fyrir tæpri öld, þykir eyjan í Norðurhafi, þar sem fólk trúir á álfa og tröll, afskaplega forvitnileg. Þarna lifir þjóðtrú sem Þjóðverjar þekkja varla lengur af eigin raun. Íslendingar birtast þýskum blaðamönnum, ef dæma má ýmsar blaðagreinar og sjónvarpsþætti um Ísland, sem hálfgerðir álfar. Svo virðist sem margir þýskir blaðamenn leiti eftir náttúrubarninu í íslenskum viðmælendum sínum, og grafi hér upp allt sem er skrýtið og sérviskulegt. Íslendingar gangast iðulega upp í þessu hlutverki og halda sjálfir á lofti ímyndinni um einskonar nútímalega náttúruálfa. Ástæðan fyrir því hve margir Þjóðverjar einblína á þessa þætti í ímynd Íslands hlýtur að vera sú að landið er þeim griðastaður fyrir hreina náttúru, þjóðtrú og skemmtilega óstýriláta manngerð sem þrífst vart lengur í þeirra eigin þéttbýla, iðnvædda, staðlaða, niðurnjörvaða og náttúrunídda landi.
Einn íslensku listamannanna sem sýndi verk sín á listkynningunni í Köln, Ósk Vilhjálmsdóttir, stóð þar fyrir gerningi sem var eins og ör sem miðaði í hjarta hinnar rómantíseruðu myndar af Íslandi. Ósk málaði eftirfarandi texta á þýsku eldrauðum stöfum á vegg í sýningarrýminu:
“Í Skítlandi er allt að fara í skít. Skítþjóðverjarnir elska Skítland. Þeir halda að Skítlendingarnir lifi í sátt við náttúruna. Skítþjóðverjarnir sjá skítálf eða skíttröll í hverjum einasta Skítlendingi.
Á hálendi Skítlands mun verða til risastórt skítlón svo að amerískt skítfyrirtæki geti keypt ódýra skítorku til þess að reka stóra skítálbræðslu. Þetta risavaxna skítverkefni mun eyðileggja hálendi Skítlands. Skítlendingarnir halda að þeir muni græða fullt af skítpeningum.
Nú hafa skítþýskir listasafnstjórar sett upp sýningu á skítlist frá Skítlandi.”
Augljóslega passar þessi mynd af Skítlandinu ekki við ímyndina af hinu hreina Íslandi. Með verki sínu vill Ósk draga fram þann tvískinnungshátt sem er að finna bæði í þýskri og íslenskri afstöðu til náttúrunnar. Ísland er markaðssett sem land hinnar hreinu og ósnortnu náttúru á sama tíma og hálendið er lagt undir tröllauknar stíflur og stóriðjuvæðing er í fullum gangi.
Verk Óskar snertir líka annað mál. Það hefur verið merkilega hljótt um Kárahnjúkavirkjun í þýskum fjölmiðlum. Það hefði mátt ætla að hinir umhverfismeðvituðu þýsku fjölmiðlamenn hefðu aldeilis gert þessu máli skil, enda er Kárahnjúkavirkjun á svörtum lista World Wildlife Fund yfir nýjar virkjanir sem valda óverjandi umhverfisspjöllum. Hvernig stendur á þessari sérkennilegu þögn? Hvers vegna sýna þýskir Íslandsvinir ekki ást sína í verki? Kann ein ástæðan að vera sú að umhverfisspjöllin á hálendinu ógni draumsýninni um hina hreinu og óspjölluðu náttúru landsins? Er þessi draumsýn kannski Þjóðverjum nauðsynleg til þess að komast af í sínu eigin landi? Þegar náttúran heima fyrir er “í skít” er gott að eiga sér draumaland hreinnar náttúru annars staðar.
Vart þarf að geta þess að það fór hljótt um þetta verk Óskar í fjölmiðlaumfjöllun um Íslandskynninguna. Það hefur komið óþægilega við þá sem næra staðalhugmyndir og þá sem nærast á klisjum um Ísland. En list stendur ekki undir nafni ef hún hættir að ögra.
Að einu leyti tók Íslandskynningin í Köln fram hinni stóru og 50 milljóna króna dýru kynningu á íslenskri menningu og list sem fram fór í París fyrir ári: Landsvirkjun var ekki kölluð til, en fyrirtækið var á menningarkynningunni í París með yfirgripsmikla og glæsta sýningu á hinni “hreinu, endurnýjanlegu, íslensku orku”. Landsvirkjun hefur á undanförnum árum eytt hundruðum milljóna króna í boðun virkjana- og stóriðjustefnu. Til að fegra ímynd sína hefur fyrirtækið m.a. styrkt fjölda listamanna sem sýna verk sín m.a. í virkjunum fyrirtækisins. Hið hugrakka verk Óskar, “Skítland”, er ekki síst sett til höfuðs þeim lygum sem Landsvirkjun og íslensk stjórnvöld boða með goðsögninni um að orkan sem verður framleidd í Kárahnjúkavirkjun sé “hrein og endurnýjanleg”.
Höfundur er heimspekingur.