Select Page

Dansinn

Laugardaginn 26. febrúar, 2005 – Myndlist 
Fugl, Félag um gagnrýna list, Skólavörðustíg 
Dansinn, Art Nurses

Á TUTTUGUSTU öld var ekki óalgengt að listamenn ynnu saman í hópum með ákveðið, gjarnan pólitískt markmið í huga. Sem dæmi má nefna The Guerilla Girls sem mótmæltu stöðu kvenna í listheiminum og Art Workers Coalition sem börðust t.d. fyrir auknu valdi minnihlutahópa við sýningarstjórn í stærri söfnum. Hóparnir byggðu jafnan á hugmyndum og þeir einstaklingar sem við sögu komu voru ekki endilega að reyna að koma eigin verkum á framfæri heldur unnu í þágu hugmyndarinnar.

Art Nurses sem samanstendur af listakonunum Ósk Vilhjálmsdóttur og Önnu Hallin er fyrirbæri í anda slíkra vinnuaðferða. List Óskar er jafnan tiltölulega pólitísk, hún leitast jafnan við að birta ákveðna fleti á samfélaginu og samtímanum, veltir þeim fyrir sér og býður áhorfandanum að taka þátt. Anna Hallin vinnur á hljóðlátari hátt en jafnan með undirtóni sem hneigist e.t.v. í svipaða átt. Það má segja að hún vinni með undirmeðvitund samfélagsins en myndmál hennar byggist á þáttum eins og pípulögnum, flokkunarkerfum, innanhússrýmum. Anna og Ósk unnu einmitt saman verkefni sem tengdist rými haustið 2003 en þá sýndu þær saman í Listasafni ASÍ undir titlinum Inn og út um gluggann. Nú hafa listakonurnar skapað Art Nurses, eða Listhjúkkurnar. Eins og endranær kemur íslenskulöggan upp þegar enskunotkun af þessu tagi bregður fyrir, því ekki nota íslenskan titil?

Titillinn er annars nokkuð í anda annars listhóps, The Icelandic Love Corporation eða eins og þær nefnast á íslensku, Gjörningakúbburinn. Viðfangsefni Gjörningaklúbbsins er þó frekar listheimurinn en samfélagið almennt. Það eru meiri krúttlegheit en broddur í verkum þeirra og skilur þar á milli með Art Nurses sem leitast við að birta “gagnrýna sýn á samspil listakvenna og stjórnmálamanna á samtíma sem einkennist af sífellt aukinni freistni til að hlutgera fleiri og stærri virkjanakosti. E.t.v. hefði mátt snúa þessum texta á liprara mál, merking hans er að mínu mati nokkuð óljós. Slíkar vangaveltur þvælast þó ekki fyrir áhorfandanum þegar horft er á myndband og brúður Art Nurses í sýningarsal Fugls. Hér er notast við einfaldar og húmorískar aðferðir við að sýna fram á hugsanlegt ósjálfstæði listamanna jafnt sem stjórnmálamanna, listakonurnar dansa á meðal stjórnmálamanna og því varla hægt að túlka verkið öðruvísi en að við séum öll föst í sömu súpunni.

Einnig má líta svo á að árangursríkasta aðferð þeirra sem berjast fyrir ákveðnum málefnum sé að tala sama tungumál og andstæðingurinn, eflaust er mikið til í því. Hér kemur upp spurningin um hlutverk listamannsins og þátt listarinnar í pólitík eða þátt pólitíkur í listum, spurning sem ævinlega er brýn en erfitt að svara. Myndbandinu fylgir lauflétt og leikandi tónlist sem gefur í skyn andrúmsloft þar sem allir hafa gleymt sér í dansinum, misst sjónar á því sem skiptir máli, það eina sem gildir er bara að dansa með. Það er ekkert íþyngjandi við þessa innsetningu Art Nurses, þvert á móti tekst þeim að velta upp áleitnum spurningum á fyrirhafnarlítinn hátt, þær gefa áhorfandanum líka færi á að móta sína eigin skoðun og láta ekki of mikið uppi um sína eigin. Lofandi framtak hjá Art Nurses og maður bíður bara spenntur eftir framhaldinu.

Ragna Sigurðardóttir

Landnám hugsunarinnar

Laugardaginn 12. febrúar, 2005 – Menningarblað/Lesbók

Yfirskriftir sýninganna sem verða opnaðar í Listasafni ASÍ í dag vekja óneitanlega hugrenningar. Það kemur í ljós þegar ég forvitnast um hvað liggur að baki hugtökunum Jákvæð eignamyndun – neikvæð eignamyndun, sem eru heiti sýning Óskar Vilhjálmsdóttur í Listasafni ASÍ sem verður opnuð í dag að eignir, ekki síst húseignir, koma nokkuð við sögu á sýningunni.

Arinstofunni er myndband, sem sýnir Reykjavík og nágrenni úr lofti, og tvö börn dansa og leika sér. “Ég hef mikið verið að velta fyrir mér nútímalandnámi, hvernig borgin sívex og maðurinn brýtur undir sig hrjóstruga mela og breytir þeim í notalegustu mannabústaði,” segir Ósk í samtali okkar. Út frá sama meiði er innsetning hennar í Gryfjunni, en þar gefur að líta vegavinnutjald sem vekur upp ýmsar hugrenningar um húsnæði og landnám; tjaldbúðir í óbyggðum, vegavinnu, flóttamannabúðir og indíánatjöld, svo dæmi séu tekin. “Tjaldið er einfaldasta form þess að búa sér til íverustað,” segir Ósk. Það er rökkvað í salnum og eina ljósið er inni í tjaldinu, sem stafar frá sér daufri birtu. Uppi á vegg sést glitta í orð, eitt-ann-hvað-að, sem eru brot úr orðunum eitthvað annað – sem Ósk málaði utan á gluggann á sýningu sinni í Galleríi Hlemmi árið 2003. Hún segist þá hafa opnað “vettvang fyrir hugmyndir og myndverk sem fjölluðu um eitthvað annað en það sem er.” Nú, þegar orðin hafa verið brotin upp, er ekki það sama uppi á teningnum. “Mér fannst orðin einfaldlega falleg í þessu formi. Til dæmis ann, eins og í að unna,” segir hún.

Tap og gróði
Ádeilan ekkert langt undan hjá Ósk frekar en fyrri daginn, þó hver verði að túlka innsetninguna eins og hann vill eins og hún bendir sjálf á, því innan úr tjaldinu berst furðulegt og dálítið ógnvænlegt hjóð. Á sama hátt er óþægilega tilgerðarlegur hlátur, í anda bandarískra gamanþátta, undirleikur myndbandsins af loftmyndinni og dansandi börnunum.
Titilhugtök sýningarinnar, jákvæð eignamyndun og neikvæð eignamyndun, eru meðal hugtaka úr viðskiptalífinu sem Ósk er að velta fyrir sér um þessar mundir. Að hennar mati eru þau til þess fallin að breiða yfir önnur og óþægilegri orð. “Í raun þýðir þetta bara gróði og tap, sem eru vúlgar orð sem menn vilja helst ekki nota. Í staðinn eru tækniorð notuð til að fegra hlutina,” segir hún og tekur sem dæmi orðin hagvöxtur, markaðslögmál, eignarhald og kaupmáttur. “Öll þessi tæknilegu orð viðskiptalífsins hafa fegrandi yfirbragð. Þau fela í sér trú á uppgang, vonir, væntingar og vonbrigði. Þau fjalla ekki um raunveruleg verðmæti heldur væntingar. Hvað eru verðmæti? Hvenær erum við að græða og hvenær erum við að tapa?”

Inga María Leifsdóttir 

Pin It on Pinterest