Laugardaginn 12. febrúar, 2005 – Menningarblað/Lesbók
Yfirskriftir sýninganna sem verða opnaðar í Listasafni ASÍ í dag vekja óneitanlega hugrenningar. Það kemur í ljós þegar ég forvitnast um hvað liggur að baki hugtökunum Jákvæð eignamyndun – neikvæð eignamyndun, sem eru heiti sýning Óskar Vilhjálmsdóttur í Listasafni ASÍ sem verður opnuð í dag að eignir, ekki síst húseignir, koma nokkuð við sögu á sýningunni.
Arinstofunni er myndband, sem sýnir Reykjavík og nágrenni úr lofti, og tvö börn dansa og leika sér. “Ég hef mikið verið að velta fyrir mér nútímalandnámi, hvernig borgin sívex og maðurinn brýtur undir sig hrjóstruga mela og breytir þeim í notalegustu mannabústaði,” segir Ósk í samtali okkar. Út frá sama meiði er innsetning hennar í Gryfjunni, en þar gefur að líta vegavinnutjald sem vekur upp ýmsar hugrenningar um húsnæði og landnám; tjaldbúðir í óbyggðum, vegavinnu, flóttamannabúðir og indíánatjöld, svo dæmi séu tekin. “Tjaldið er einfaldasta form þess að búa sér til íverustað,” segir Ósk. Það er rökkvað í salnum og eina ljósið er inni í tjaldinu, sem stafar frá sér daufri birtu. Uppi á vegg sést glitta í orð, eitt-ann-hvað-að, sem eru brot úr orðunum eitthvað annað – sem Ósk málaði utan á gluggann á sýningu sinni í Galleríi Hlemmi árið 2003. Hún segist þá hafa opnað “vettvang fyrir hugmyndir og myndverk sem fjölluðu um eitthvað annað en það sem er.” Nú, þegar orðin hafa verið brotin upp, er ekki það sama uppi á teningnum. “Mér fannst orðin einfaldlega falleg í þessu formi. Til dæmis ann, eins og í að unna,” segir hún.
Tap og gróði
Ádeilan ekkert langt undan hjá Ósk frekar en fyrri daginn, þó hver verði að túlka innsetninguna eins og hann vill eins og hún bendir sjálf á, því innan úr tjaldinu berst furðulegt og dálítið ógnvænlegt hjóð. Á sama hátt er óþægilega tilgerðarlegur hlátur, í anda bandarískra gamanþátta, undirleikur myndbandsins af loftmyndinni og dansandi börnunum.
Titilhugtök sýningarinnar, jákvæð eignamyndun og neikvæð eignamyndun, eru meðal hugtaka úr viðskiptalífinu sem Ósk er að velta fyrir sér um þessar mundir. Að hennar mati eru þau til þess fallin að breiða yfir önnur og óþægilegri orð. “Í raun þýðir þetta bara gróði og tap, sem eru vúlgar orð sem menn vilja helst ekki nota. Í staðinn eru tækniorð notuð til að fegra hlutina,” segir hún og tekur sem dæmi orðin hagvöxtur, markaðslögmál, eignarhald og kaupmáttur. “Öll þessi tæknilegu orð viðskiptalífsins hafa fegrandi yfirbragð. Þau fela í sér trú á uppgang, vonir, væntingar og vonbrigði. Þau fjalla ekki um raunveruleg verðmæti heldur væntingar. Hvað eru verðmæti? Hvenær erum við að græða og hvenær erum við að tapa?”
Inga María Leifsdóttir